Stafrænar styttur

Listasafn Einars Jónssonar, verkfræðistofan EFLA og List fyrir alla sameinast um stafrænt aðgengi að tíu þrívíðum styttum fyrsta myndhöggvara Íslands með því að myndmæla þær á þann hátt að kennarar geti boðið nemendum sínum að skoða þær í tölvu og/eða snjalltæki.

 

Hér er hægt að nálgast fræðslupakkann:

Alda aldanna

Þetta er listaverkið Alda aldanna eftir Einar Jónsson myndhöggvara og stafrænn tvíburi af því. Upprunalega listaverkið er staðsett í Listasafni Einars Jónssonar (Hnitbjörgum) en bronsafsteypur af verkinu eru í Vestmannaeyjum, á Flúðum og í höggmyndagarðinum við safnið. Verkið er yfir tvo metra á hæð en stafræni tvíburinn getur sýnt það frá mörgum óvenjulegum sjónarhornum. Til dæmis er hægt að sjá andlitið á konunni, sem er hæsti punktur verksins. 

Útgangspunktur verksins er hinn sterki sjálfstæði einstaklingur, sá sem brýst fram og upp á við með miklum krafti. Einars sótti gjarnan innblástur til íslenskrar náttúru sem má glögglega sjá í þessu listaverki. Vinnuheiti verksins staðfestir þessa tengingu en það var á tímabili kallað Skýstrokkurinn. 

Í fræðslupakkanum sem fylgir verkefninu eru spurningar til umræðu, nánari upplýsingar um listaverkið og tillögur fyrir kennara.

Andi Og Efnisbönd

Þetta er listaverkið Andi og efnisbönd eftir Einar Jónsson myndhöggvara og stafrænn tvíburi af því. Upprunalega listaverkið er staðsett í Listasafni Einars Jónssonar (Hnitbjörgum) en bronsafsteypa af verkinu er í höggmyndagarðinum við safnið. Stafræni tvíburinn getur sýnt styttuna frá mörgum óvenjulegum sjónarhornum. Prófið að skoða stærðarhlutföll og form líkamanna í listaverkinu.

Þessi höggmynd er tákn um það hvernig efnið, til dæmis efnislíkami eða efnisheimur, heldur manneskjunni fastri þar til hún ákveður sjálf að slíta sig úr böndum sem hefta hana. Baráttan snýst um að ná tökum á því efnislega þannig að andinn stýri en ekki öfugt. Þessi klemma eða átök er einnig umfjöllunarefni Einars í fleiri listaverkum.

Í fræðslupakkanum sem fylgir verkefninu eru spurningar til umræðu, nánari upplýsingar um listaverkið og tillögur fyrir kennara.

Ingólfur Arnarson

Þetta er stytta af Ingólfi Arnarsyni sem Einar Jónsson myndhöggvari bjó til og stafrænn tvíburi af styttunni. Upprunalega listaverkið er staðsett í Listasafni Einars Jónssonar (Hnitbjörgum) en bronsafsteypa af verkinu er á Arnarhóli í Reykjavík. Stafræni tvíburinn getur sýnt styttuna frá sjónarhornum sem erfitt er að sjá í listaverkinu sjálfu, þar sem höggmyndin af Ingólfi Arnarsyni er þrír og hálfur metri á hæð! Prófið að skoða styttuna allan hringinn. Komið þið auga á einhvern mun á ljósmyndinni af listaverkinu og stafræna tvíburanum?

Hér sækir Einar myndefnið í landnámssögu Íslands. Ingólfur Arnarson er sagður hafa kastað öndvegissúlum fyrir borð áður en hann lagði að landi árið 872 og lét þær þannig ákveða hvar hann myndi setjast að. Ingólfur er talinn vera fyrstur manna til að hefja varanlega búsetu á Íslandi.

Í fræðslupakkanum sem fylgir verkefninu eru spurningar til umræðu, nánari upplýsingar um listaverkið og tillögur fyrir kennara.

Leikslok

Þetta er listaverkið Leikslok eftir Einar Jónsson myndhöggvara og stafrænn tvíburi af því. Upprunalega listaverkið er staðsett í Listasafni Einars Jónssonar (Hnitbjörgum) en bronsafsteypa af verkinu er í höggmyndagarðinum við safnið. Prófið að nýta stafræna tvíburann til þess að skoða svipbrigði veranna í verkinu.

Hugsanlega á höggmyndin Leikslok að segja sögu sem tengist Ask Yggdrasils eða lífsins tré, sem er úr norrænni goðafræði og nær tréð í gegnum allan heiminn. Hér má sjá verur sem brjótast út úr trjástofni sem virðist vera klofinn í tvennt.

Í fræðslupakkanum sem fylgir verkefninu eru spurningar til umræðu, nánari upplýsingar um listaverkið og tillögur fyrir kennara.

Skuld

Þetta er listaverkið Skuld eftir Einar Jónsson myndhöggvara og stafrænn tvíburi af því. Skissa eða frumkast af listaverkinu er staðsett í Listasafni Einars Jónssonar (Hnitbjörgum) og bronsafsteypa af því er í höggmyndagarðinum við safnið. Stafræni tvíburinn getur sýnt styttuna frá mörgum sjónarhornum og gert fólki kleift að skoða nánar hin ýmsu smáatriði höggmyndarinnar.

Einar sækir hér myndefni í norræna goðafræði og örlaganornirnar Urði, Verðandi og Skuld eins og heiti verksins gefur til kynna. Útgangspunktur listaverksins er mikilvægi þess að manneskjan átti sig á örlögum sínum og geri upp sínar skuldir hvort sem þær eru efnislegar eða siðferðilegar. 

Í fræðslupakkanum sem fylgir verkefninu eru spurningar til umræðu, nánari upplýsingar um listaverkið og tillögur fyrir kennara.

Svefn

Þetta er listaverkið Svefn eftir Einar Jónsson myndhöggvara og stafrænn tvíburi af því. Upprunalega listaverkið er staðsett í Listasafni Einars Jónssonar (Hnitbjörgum) en bronsafsteypa af verkinu er
í höggmyndagarðinum við safnið. Stafræni tvíburinn getur sýnt styttuna frá mörgum sjónarhornum. Prófaðu að skoða nánar stærðarhlutföll og form líkamana sem sjást í listaverkinu.

Fáar heimildir eru til um þetta listaverk og því koma margar túlkanir til greina. Hugsanlega er höggmyndin Svefn að segja sögu sofandi risa sem vaknar upp af martröð. Önnur túlkun væri
að mannveran sem stendur við hlið risans sé lítil álfadís eða verndarengill og risinn mannvera. 

Í fræðslupakkanum sem fylgir verkefninu eru spurningar til umræðu, nánari upplýsingar um listaverkið og tillögur fyrir kennara.

Úr álögum

Þetta er listaverkið Úr álögum eftir Einar Jónsson myndhöggvara og stafrænn tvíburi af því. Upprunalega listaverkið er staðsett í Listasafni Einars Jónssonar (Hnitbjörgum) en bronsafsteypa af verkinu er við tjörnina í Reykjavík. Úr álögum er eitt stærsta verk Einars, eða um 270 cm á hæð og því getur verið erfitt að skoða það frá ákveðnum sjónarhornum. Stafræni tvíburinn getur hins vegar sýnt höggmyndina frá öllum hliðum. Prófið að skoða hana allan hringinn.

Einar nýtti alls konar sögur sem innblástur í listaverk sín, þar á meðal þetta. Hér er vísað í þjóðsöguna um riddarann Georg sem fellir dreka til að bjarga prinsessu frá því að vera étin af honum. 

Í fræðslupakkanum sem fylgir verkefninu eru spurningar til umræðu, nánari upplýsingar um listaverkið og tillögur fyrir kennara.

Útlagar

Þetta er listaverkið Útlagar eftir Einar Jónsson myndhöggvara og stafrænn tvíburi af því. Upprunalega listaverkið er staðsett í Listasafni Einars Jónssonar (Hnitbjörgum) en bronsafsteypur af verkinu eru við Hólavallakirkjugarð á horni Suðurgötu og Hringbrautar í Reykjavík og við Eyrarlandsveg rétt hjá Menntaskólanum á Akureyri. Stafræni tvíburinn býður upp á að sýna styttuna frá óvenjulegu sjónarhorni sem erfitt er að sjá í listaverkinu sjálfu þar sem það er yfir tvo metra á hæð. Prófið t.d. að skoða styttuna ofan frá.

Einar sótti innblástur í þjóðsögur um útilegumenn í þessu listaverki, þá sem lifðu í einveru og einangrun upp á hálendinu til að forðast dóm eftir að hafa brotið af sér í samfélaginu. Þetta var harðneskjulegt líf á flótta. 

Í fræðslupakkanum sem fylgir verkefninu eru spurningar til umræðu, nánari upplýsingar um listaverkið og tillögur fyrir kennara.

Vernd

Þetta er listaverkið Vernd eftir Einar Jónsson myndhöggvara og stafrænn tvíburi af því. Upprunalega listaverkið er staðsett í Listasafni Einars Jónssonar (Hnitbjörgum) en bronsafsteypa er staðsett á áberandi stað í höggmyndagarðinum við safnið. Stafræni tvíburinn getur sýnt styttuna frá óvenjulegum sjónarhornum sem erfitt er að sjá í listaverkinu sjálfu þar sem það er rúmir tveir metrar á hæð. Prófið að skoða styttuna aftan frá og kannið hvort þið komið auga á eitthvað óvænt.

Þessi höggmynd virðist fjalla um kærleika, öryggi og móðurást. Verkið gæti einnig vísað í madonnumyndir, en það eru myndir af Maríu mey með Jesúbarnið. Að baki verkinu býr jafnframt táknræn merking um vernd, í stærra samhengi en á milli móður og barns, eins og þörf listamannsins fyrir vernd frá öðrum. En það er jú öllum frjálst að túlka listaverkið á sinn hátt eftir upplifun hvers og eins. 

Í fræðslupakkanum sem fylgir verkefninu eru spurningar til umræðu, nánari upplýsingar um listaverkið og tillögur fyrir kennara.

Ýmir og Auðhumla

Þetta er listaverkið Ýmir og Auðhumla eftir Einar Jónsson myndhöggvara og stafrænn tvíburi af því. Upprunalega listaverkið er staðsett í Listasafni Einars Jónssonar (Hnitbjörgum) en bronsafsteypur af því eru á Selfossi og í höggmyndagarðinum við safnið. Stafræni tvíburinn getur sýnt styttuna frá mörgum óvenjulegum sjónarhornum. Prófið að þysja inn (zoom-a) á verkið til að skoða letrið á hliðunum.

Einar sækir hér innblástur í norræna goðfræði, nánar tiltekið í söguna um jötuninn Ými og kúna Auðhumlu. Ýmir og Auðhumla er eitt af verkum Einars þar sem hann setur fram hugmyndir um hringrás lífs og dauða.

Í fræðslupakkanum sem fylgir verkefninu eru spurningar til umræðu, nánari upplýsingar um listaverkið og tillögur fyrir kennara.

Listasafn Einars Jónssonar
Hallgrímstorgi 3
101 Reykjavík